Ævintýralandið
Alvöru þykjustuleikur

Ævintýralandið er alíslenskt spil sem byggir á þykjustuleik barna. Það gefur fullorðnum tækifæri til að vera hluti af ímyndunarveröld barnsins en um leið veita leiðsögn og vera rödd ævintýranna. Öll börn dreymir um að leika sér með foreldrum sínum sem jafningjar og sýna hversu miklar hetjur þau eru – sterk, skapandi og dugleg. Ævintýralandið er til þess gert og leiðir foreldra um hinn stórkostlega ævintýraheim sem flestum hverfur á unglingsárunum en allir geyma í draumum sínum.

Í spilinu vinna allir saman og það er tilvalið fyrir fjölskyldur með börn á aldrinum 4 til 12 ára.

Einn leikmaður er stjórnandi leiksins. Hann er sögumaður í ævintýri en aðrir þátttakendur skapa og leika hver sína söguhetju í því. Sögur eru dregnar af handahófi og inn í þær fléttast talandi dýr, spennandi fólk og allskyns hlutir sem sumir hafa yfirnáttúrulega krafta.

Söguhetjurnar lifa sig inn í ævintýrin og taka þátt í að móta þau ásamt sögumanninum. Í sögulok fær hver hetja sín verðlaun sem nota má til að auka mátt hennar fyrir næsta ævintýri. Mikilvægast af öllu er þó uppbyggjandi samvera og að allir skemmti sér!


Hönnun og útgáfa

Ævintýralandið er gefið út af Pælingu ehf. en auk höfunda standa að fyrirtækinu Ólafur Stefánsson handknattleiksmaður, Reynir Harðarson stofnandi CCP, þrír grafískir hönnuðir og tveir myndlistarmenn.

Pæling hlakkar til að leiða ykkur inn í Ævintýralandið!



Höfundar: Rúnar Þór Þórarinsson og María Huld Pétursdóttir

Myndskreytingar: Björn Börkur Eiríksson, Kári Gunnarsson og Brian Pilkington

Grafísk hönnun: Hallvarður Jónsson, Sverrir Ásgeirsson og Vilhjálmur Ingi Vilhjálmsson